„Fátt er yndislegra en að vera úti í skógi og snyrta tré“. Nemendur á námskeiði í ungskógaumhirðu eru algerlega sammála þessari fullyrðingu enda gátu hvorki þeir né leiðbeinendur hamið sig í skóginum, það var svo gaman. Þetta er í sjötta skiptið á sjö árum sem þau Hlynur Gauti Sigurðsson og Sherry Curl eru leiðbeinendur á námskeiði í ungskógarumhirðu. Fyrstu fimm voru haldin á vegum Héraðs- og Austurlandsskóga og var það fyrsta haldið haustið 2010. Oftast hefur það verið haldið í kjölfarið af Trjáfellingar- og grisjunarnámskeiði sem haldið hefur verið af Björgvini Eggertssyni hjá Landbúnaðarháskóla Íslands en í ár var undantekning frá þeirri venju. Kennsla fór fram á tveimur dögum. Fyrri dagurinn (fös 20.okt) var innandyra á höfuðstöðvum Skógræktarinnar á Egilsstöðum og var farið vel yfir fræðilegan og fjárhagslegan ávinning skógarumhirðu. Síðari dagurinn (lau 21.okt) var úti og fór fram í þjóðskóginum á Höfða. Veðrið var kyrrt og hlýtt og það hélst þurrt allan daginn. Eins og á fyrri námskeiðum var Þröstur Eysteinsson, skógræktarstjóri, með í för seinni daginn en það var verklegur dagur sem megin áherslan var á verkliði á borð við tvítoppaklippingu, snyrtingu, uppkvistun og val á trjám við millibilsjöfnun. Þátttakendur voru: Róbert Davíðsson, Jakob Þór Davíðsson og Pétur Hjartarson, frá Flögu, Andrés Einarsson frá Bessastöðum, Gísli Örn Guðmundsson og Þórarinn Þórhallsson frá Þorgerðarstöðum, Kristján Jónsson frá Hjartarstöðum, Maríanna Jóhannsdóttir frá Snjóholti og Magnús Karlsson frá Hallbjarnarstöðum. Til gamans má geta að á fyrsta námskeiðinu 2010 var tekin hópmynd með nýsnyrtan skóg í bakrunni. Þá var skógurinn einstaklega illa á sig komin og trén meira og minna fjölstofna, fjöltoppa, grófgreinótt og bogin. Hópmyndin sem tekin var núna, er frá svipuðu sjónarhorni og þar má sjá feikilegan vöxt beinvaxinna lerkitrjáa 7 árum síðar og því um ólíkt betri skóg að ræða en hér áður var lýst. Umhirða ungskóga borgar sig margfalt. Höf: Hlynur, Frétt kom einni fram á skogur.is
0 Comments
Leave a Reply. |
KviklandFréttir af hinu og þessu þegar það á við. Geymsla
December 2022
Flokkar |